15.9.2009 | 23:08
Er ráðdeild refsiverð.
Ég hef undanfarið ekki hlustað á fréttir eða Kastljós og reynt að toga mig út úr því argaþrasi sem að einkennt hefur hið daglega líf þar sem að mínu mati vitleysan hefur verið alsráðandi síðustu mánuði. Það er varla annað en hægt að hafa áhyggjur af sjálfum sér og eigin geðheilsu með alla þá innibyrgðu reiði sem atburðir síðasta vetrar og aðgerðir og aðgerðaleysi stjórnvalda hafa kynnt innra með mér og fleiri landsmönnum.
En því miður virðist ekki vera hægt að vera ósnortin af þeim verkum sem framkvæmd eru þessa daga og virðast öll vera á eina bókina lærð og mætti sú bók tortímast í eilífum eldi svo að ég er farin að hlusta aftur.
Það stendur til að refsa okkur sem gengum hægt um gleðinnar dyr það á ekki að leiðrétta þjófnaðinn sem að við urðum fyrir nei þeir sem hafa eitthvað borð fyrir báru skulu borga gleðskapinn. Það er búið að bæta innistæðu eigendum með tölum sem að hlaupa á 200 til 470 000 000 000 króna eftir því hver talar.
Það er verið að strjúka skömmina af útvöldum og endurreisa þá nýskeinda og þrifna svo að þeir geti hafið leikinn að nýju og nú á að taka þá sem eru skuldsettir tvo metra upp fyrir rjáfur og afskrifa hjá þeim. Hverjir skulu borga brúsann, jú þeir sem að lifðu sínu lífi borguðu sitt og fjárfestu ekki meir en þeir töldu að ráðlegt væri miðað við reynsluna af brokkgengu efnahaglífi heimsins.
Það er svo sem ekki nýtt að heimurinn sé svag undir þessa tegund mankyns og sé reiðubúin að fyrirgefa henni syndirnar og taka á móti henni með opnum örmum um það eru til aldagamlar heimildir í sögunni af Abel og Kane ég vona bara að saga nútímans endi betur.
Síðan er það spurning hvort fólki er einhver greiði gerður með því að halda því á skuldabrúninni árum saman því ef að sú stjórnvöld sem að hér ríkja eru samkvæm sjálfum sér verður naumt skorið hjá flestum og þeim rétt stjakað inn á bjargbrúnina rétt nógu langt til að óhætt sé að mjólka þau aðeins lengur. Er þetta ekki einfaldlega þrælahald þar sem að búgarðseigandinn er bankinn og ráðsmaðurinn sem svo áður hét það er sá sem hélt á svipunni heitir nú tilsjónarmaður.
Er ekki einfaldlega betra fyrir fólk að horfast í augu við staðreyndir og viðurkenna það að í mörgum tilfellum reisti fólk sér hurðarás um öxl og getur aldrei gert upp sín mál við lánadrottna og það þarf að fara í gegnum gjaldþrota ferli ferli sem að mætti þó bæta til muna við þær aðstæður sem að nú ríkja. Það er engu þjóðfélagi til góðs að gera stóran hluta þegna sinna að hundeltum skuldurum en það er heldur engu þjóðfélagi til góðs að gera svo upp á milli þegna sinna að það bresti í innviðum þjóðfélagsins.
Hin eilífa lausn vinstri manna að tekjutengja allt er síðan dæmd til að mistakast vegna mannlegra kosta eða ókosta þegar búið verður að tekjutengja lánin þá aðlagar fólk sig að þeirri reglu hvatinn til vinnu verður horfin. Hvers vegna að taka aukavinnu sem að fyrirtækið sem hefur þig i vinnu þarf á að halda til að klára verk ef að sú aukavinna hleypir greiðslum af lánum þinum upp og sá hvati sem að var í auknu fé handa á milli hverfur því að allt sem að þú aflar tekur stóri bróðir til sín. Og hver treystir síðan Íslenskum stjórnvöldum til að standa við þær reglur sem að þau setja það er nóg að líta til öryrkja og eldri borgara og þeirra tekju og afkomu trygginga til að sjá hvernig stjórnvöld standa við stóru orðin.
Hin kalda staðreynd sem er hægt og rólega að koma í ljós er sú frá mínum bæjardyrum séð að það var haldið svaka partí nágrannarnir keyptu pizzu snakk bús og bland út á krít og skemmtu sér konunglega. Þeir hentu öllu ruslinu í garðinn
En morguninn eftir þegar veislan var búin kemur formaður húsfélagsins með reikninginn fyrir veigunum til þeirra sem fóru snemma að sofa og hristu höfuðið góðlátlega yfir hávaðanum meðan þeir breiddu sængina yfir haus.
Síðan skikkar formaðurinn þá hina sömu til að týna ruslið úr garðinum áður en þeir fara til vinnu svo að bærinn kvarti ekki.
Að síðustu leggur hann síðan aukagjald á húsjóðin til að geta staðið undir Magnyl kaupum til að lina timburmenn gleðskaparfólksins.
Mér finnst þetta fúlt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.