Ég á mér lítinn draum.

Mikill maður átti sér draum. Ég á mér líka draum þó smærri sé í sniðum og ég langtum minni maður en hann samt á ég mér draum sem að mig langar til að rætist.

Ég á mér draum þann draum að hér á landi rísi upp nýtt afl. Afl sem er ekki hokið vegna fyrri tíma misgjörða, afl sem að er reiðubúið að láta til sín taka við endurreisn landsins á forsendum lands og þjóðar en ekki  á þvinguðum forsendum annarra ríkja og eiginhagsmuna sjálfs sín.


Ég á mér draum um að hér ríki réttlæti fyrir stóra sem smáa, þá sem minna eiga og þá sem betur standa, að þeir sem ríkja láti ekki undan þeirri  freistingu að skara eld að sinni köku og þeirra sem þeim eru nánir heldur deili byrðunum og gjöfunum á réttlátan hátt meðal fólksins í landinu.

Ég á mér draum um að hér ríki virðing meðal stétta að menntamaðurinn geri sér ljóst að það eru hendur verkamannsins og iðnaðarmannsins sem að skapa verðmætin sem gera honum kleyft að stunda nám sitt og að verkamaðurinn og iðnaðarmaðurinn geri sér grein fyrir því að  vinna og hugmyndir menntamannsins  oft á tíðum skapa ný tækifæri og sóknafæri fyrir þá og að þessir aðilar geri sér grein fyrir því að þegar þeir mæta á vinnustaði sína ný þrifna og skínandi er það fyrir atbeina fólksins sem að við lágan kost tók til og þreif undan þeim skítinn eftir að þeir voru farnir heim til fjölskyldna sinna kvöldið áður.

Ég á mér draum um að hér ríki stjórnvöld sem að láta ekki undan þrýstingi og kúgun erlendra ríkja sem ásælast auðlyndir okkar og land sjálfum sér til hagsbóta. Að hér ríki stjórnvöld sem að virða Íslenska menningarhefð og sögu án þess að gera lítið úr sögu og menningu annarra þjóða og að hér ríki stjórnvöld sem eru fær um að leiða þjóðina  áfram í ölduróti því sem að nú ríkir í heiminum með þau markmið að leiðarljósi sem eru þjóðinni og einungis þjóðinni fyrir bestu.


Mig dreymir um að þau hin sömu stjórnvöld séu reiðubúin til að  refsa þeim sem að keyrðu landið í þrot og gera allt sem þau geta til að endurheimta þau verðmæti sem að tekin voru ófrjálsri hendi í staðin fyrir að eiða tímanum í nefndir og undirnefndir þar sem að hinum  þóknanlegu  er plantað á dágóðu kaupi þó að þeir séu á launaskrá annarstaðar og að þau hin sömu stjórnvöld geri sér grein fyrir því að nú á að halda sig heima við og slökkva þá elda sem að hér brenna og hefja endurreisnina en ekki eiða tímanum í veislusölum erlendis og að lausn vandamála okkar felast ekki í þvi að láta aðra leysa þau fyrir okkur með þvi að stökkva í fang stórvelda.

Ég á mér draum um að hér rísi á ný þjóðfélag þar sem að við getum stolt bent á að gott sé að ala upp nýjar kynslóðir sem að geti leikið sér á túnum og i görðum án hættu á að verða fyrir ofbeldi og geti notið þess frelsis sem að fylgir því að vera ungur því eitt er vist að árin færast nógu hratt yfir og gleði og frelsi æskunnar er liðin tíð fyrr en nokkurn varir.

Mig dreymir um að hér ríki afl sem að virðir einstaklinginn og framtak hans en hefur um leið bein í nefinu til að setja þær leikreglur sem þarf svo frelsi eins verði ekki helsi annars. Afl sem styður og eflir einstaklingsframtakið og treystir þegnum sínum fyrir hinu daglega amstri en telur ekki sjálft sig best til þess fallið að deila og drottna og að öllum hlutum hins daglega lífs sé best komið undir vökulum augum yfirvaldsins.

Ég á mér draum sem að ég er viss um að margir landar mínir deila með mér en ég er orðin svartsýnn á að hann rætist við núverandi ástand. Þetta er einfaldur draumur um einfalt og sanngjarnt  þjóðfélag, sennilega frekar barnalegur draumur í þessum heimi þar sem að hið góða í okkur mannfólkinu virðist vera á hröðu undanhaldi fyrir því sem miður er í fari okkar.

Mér er þó að verða ljóst það er að þangað til að ég og það fólk sem deilir þessum draumi með mér gerir ekkert í því að láta drauminn rætast er hætt við að þetta verði engin draumur heldur martröð.

Góða helgi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband