30.8.2007 | 13:32
Baráttan um fjármagnstekjur
Hart er deilt um hvort sveitarfélögin eigi að fá hlutdeild í fjármagnstekjuskatti og sýnist sitt hverjum. Af umræðunni mætti draga þá skoðun að við pöpullinn höfum fyllst svo mikilli lotningu fyrir þeim sem lært hafa að kaupa og selja pappír í gegnum tölvuskjá að ekkert megi við þá koma því að þá gufi þeir upp eins og menningararfurinn. Það er sorglegt að þjóðarsálin skuli vera orðin svo gegnsýrð af Mammons dýrkun að ekkert megi hér viðhafa sem að gæti truflað rótarvöxt trúarinnar á Mammon. En hvað eru sveitarfélög að væla þau fá nýja íbúa sem að vega á móti fólksflóttanum stundum meira að segja íbúa sem að geta borgað lagningu háhraðatenginga að viðveru stöðum sínum og það beina leið og hvað með það þó að sumir þessara nýbúa sveitarfélagsins séu undir hungurmörkum (samkv framtölum) og borgi ekki neitt til samneyslunnar. Menn eiga að bjóða þá velkomna og senda skólabíla um holt og hæðir ryðja afleggjara fjarlægja rusl og reka almenna þjónustu fyrir þá eins og hina moldríku síbúa sem fyrir voru, íbúa sem í sumum tilfellum hafa barist áfram árum saman langt undir meðalafkomu í landinu. Það hlýtur að vera þessu fólki mikið gleðiefni að geta stutt við fjármagnseigendur með því að mennta börn þeirra, veita þeim heilsugæslu, dagvistun og ryðja heimreiðarnar svo að þeir komist af bæ.
Heimur versnandi fer og mikið hefði verið gott fyrir þessa blessuðu fjármagnseigendur að vera uppi fyrr á öldum þegar til var haldreipi fyrir fólk án afkomu. Það hefði þá getað sagt sig til sveitar. Þá voru jú þeir sem að ekki greiddu neitt til samfélagsins kallaðir sveitarómagar og boðnir upp á hreppsþingum. Næst er boðin upp ...... ´
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:35 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.