24.12.2010 | 15:16
Gleðileg Jól
Það er komið að þeim tíma á hverju ári þegar er eins og að klukkan hægi á sér það skiptir ekki máli hvað maður verður gamall það er alltaf eins og að veröldin haldi niður í sér andanum næstu klukkustundir. Börnin mæna á jólatrén og pakkana í vímu eftir væntingar, mæður grúfa sig yfir eldavélarnar ausa á hryggi, rjúpur og hvað eina sem að er í ofninum og heimilisfeður skafa af sér skeggið og reyna að teygja skyrtuna yfir magann bölvandi því að hún hafi hlaupið síðan í fyrra þegar að hún var vel rúm um búkinn.
Flestir eru á fullu við að undirbúa jólin og vonast til að þetta verði hin fullkomnu jól sem að við erum alltaf að leita að jólin sem að börnin okkar muni muna og segja frá þegar þau keyra seinna meir í friðargarðinn á aðfangadag með nýjar kynslóðir í aftursætinu og stormkerti í skottinu.
Flestir eru búnir að ganga sér til húðar í amstri undanfarnar vikur og þegar kvöldið í kvöld er liðið líður mörgum eins og þeir hafi verið að ljúka hálf maraþoni. Þó finnst mér þessi jól hafi verið afturhvarf til þeirra tíma þegar að gæði skiptu meira en magn og verð. Það er sama hvað hver segir jólaösin var ekki sú sama og undanfarin ár og fólk upp til hópa afslappaðra. Ég sjálfur lenti í óralangri röð í gær og tók eftir því hvað allt var afslappað og rólegt og líkaði það bara vel.
Ég tilheyri þeim forréttinda hópi að vera komin á miðjan aldur með ágæta heilsu þolanlegt geð og það er tilfellið að eftir því sem árin færast yfir öðlast jólin aftur svipaðan sess og áður vegna þess að hægt og rólega losnar maður undan því álagi sem að fylgir þessum tíma.
Hafandi uppgötvað það að hin fullkomnu jól eru ekki til losar mann að miklu leiti úr mesta stressinu. Að vera orðin það gamall að manni er boðið í mat á aðfangadagskvöld losar mann undan eldamennsku og að vera búin að gera sér grein fyrir því að jólakötturinn er löngu komin til byggða og vinnur núna í stjórnsýslunni losar mann undan stór fatakaupum fyrir hver jól.
Nýir sokkar eru nóg og kaupi maður alltaf sokka í Rúmfatalagernum og alltaf eins þá getur maður sloppið með að vera í einum nýjum og þá dugar parið tvö jól.
Þetta hefur gert manni ljóst jólin snúast um samveru bros faðmlag spjall og það að gefa af sjálfum sér. Veraldlegar gjafir hjálpa auðvitað til og gera tíman skemmtilegri og spennandi en hið mannlega er í raun það sem mestu máli skiptir það er ekki það hvað er í matinn hvort það er þríréttað eða fjórréttað sem að við munum eftir, það er brosið sem að það að gefa öðrum framkallar á litlum sem stórum andlitum og takið eftir það bros fylgir ekki verðgildi.
Það er þessi samvera sem gerir jólin svo yndisleg og síðustu klukkutímana fyrir hver jól svo miklu lengri en aðra tíma ársins. Hin fullkomnu jól eru síðan ekki til þau eru öll fullkomin hvert á sinn hátt.
En nú ætla ég að skafa skeggið svo að barnabörnin skammi mig ekki fyrir hrufóttar kinnar þegar þau knúsa mig fyrir jólagjafirnar og ég ætla að njóta þess að skyrtan frá í fyrra er víðari núna en þá þegar ég fer í hana.
Gleðileg jól kæru bloggvinir og megið þið eiga góða hátíð.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.