Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2013
6.4.2013 | 14:05
Aulinn sem borgar.
Það er orðin nokkurskonar getspá á þessu heimili að glugga í útsendingar Íbúðalánasjóðs á reikningum hvers mánaðar og skoða lækkun eða hækkun hvers mánaðar. Ef það er útsala þá lækkar ef ekki þá hækkar samt finnst mér skrítið að ef gallabuxur lækka um 1000 kall þá lækkar lánið mitt um 1/2 X en þegar útsalan er búin og þær kosta aftur það sama sé ég ekki betur en lánið mitt hækki um X þannig að þessi aðferðarfræði virðist vera hönnuð til að fara upp á við en aldrei niður svo einhverju nemi.
Ég hef komist að því að eins og margir í þessu þjóðfélagi skortir mig greind til að sína ábyrgð og þetta er allt mér að kenna. Ég fór offari á árum áður keypti mér íbúð og bíl meira segja mat stundum jafnvel of mikinn mat en tel mér þó til tekna að ég keypti ekki oft nautalund. Hvað með það þó að eiginfjárhlutfall í íbúðinni hafi verið vel yfir 60% nú eða að bíllinn árgerð 1991 það er um það bil að verða fornbíll. Þetta var samt allt mér að kenna það segja alla vega fræðimenn.
Ekki hef ég síðan bætt ráð mitt svo neinu nemi því enn er ég að borga jafnvel þó mætur maður hafi sagt svo eftir væri tekið á miðlum landsins að það væri ábyrgðarleysi að borga skuld, samt hef ég ekki bætt ráð mitt og borga enn ég er því varla á vetur setjandi.
Það sem mér kannski svíður mest er að vera kallaður ábyrgðarlaus fjárglæframaður trekk í trekk af misvitrum spekingum sem margir hverjir hafa menntað sig á þeim skattpeningum sem ég hef greitt til samfélagsins og hafa framfæri sitt af því að gefa ráð sem aldrei virka og spár sem aldrei rætast.
Til að auka hugarró og sættast við ábyrgðarleysi sjálfs míns hef ég tekið upp á því að rækta úreltann skrokkinn það verður að sína þá ábyrgð að halda peningasköpunarvél ríkisvaldsins í nothæfu ástandi svo hún geti greitt í að minnsta kosti 20 ár í viðbót.
Á þeim stundum þegar verið er að efla líkamann synir hugurinn oft einhverja virkni líka og í morgun fattaði ég allt í einu að það má skilgreina hluta af því sem að ég er að borga sem útfararkostnað.
Hvernig tel ég að ég sé að borga útfararkostnað fyrir aðra. Sú skoðun er byggð á öðru atriði sem kom fram í miðlum þessa lands þegar einstaklingur var spurður út í afskriftir og sagði eitthvað á leið að þetta hefði allt verið froða og nú væri froðan farinn og spurður hvað hefði orðið um froðuna þá ef ég man rétt var einhvernvegin komist þannig að orði að hún hefði farið til peningahimna.
Hafi þessir aurar allir sem hurfu úr Íslensku samfélagi farið til peningahimna þá má líkum leiða að Íslenska hrunið hafi verið andlát peningastefnu þeirrar sem rekin var og uppgjörið jarðarför hennar. Venjan hefur verið að aðstandendur sjái um útfarir sem að þeim snúa en í þessu tilfelli finnst mér eins og að reikningurinn fyrir erfisdrykkjunni hafi verið sendur til mín og annarra landsmanna um leið og okkur er talið trú um að það sé skilda okkar að sjá um útförina og erfisdrykkjuna vegna þess að andlátið sé okkur að kenna okkur beri því siðferðileg skilda vegna misgjörða okkar til að greiða.
Kannski er það svo kannski er ég ábyrgðarlaus millistéttar auli kannski var þetta allt mér að kenna og kannski er bara sjálfsagt að ég borgi þetta.
Samt er eitt sem að mér finnst falskt í þessu öllu ég þekkti viðkomandi ekki neitt hitti viðkomandi aldrei átti enga samleið með viðkomandi var aldrei boðið í afmæli brúðkaup eða viðburði þar sem borðað var gull og kavíar slett um gólf.
Ég lifði bara mínu lífi og setti kókosmjöl á kökur á afmælisdögum stundum skrautsykur þegar mikið var borist á, grýtti aldrei kavíar kannski einni og einni kjúku þegar ég var sem reiðastur og mér var heldur ekki boðið þegar verið var að skipta arfinum eða í erfisdrykkjuna sjálfa.
Þess vegna er mér í dag illa misboðið og hugsa þeim þegjandi þörfina sem kallað hafa mig og mína líka ábyrgðarlausa og senda okkur endalaust nýja gíróseðla fyrir útförinni rétt eins og kerlingin í Kiðhús.
27 apríl er dagurinn sem að ég segi álit mitt fræði og ráðamenn gleymdu nefnilega einu Millistéttaraular geta hugsað og nú hugsum við þessum aðilum þegjandi þörfina eins og skoðanakannanir sína.