9.10.2009 | 21:43
Nú er úti veður vont.
Nú er úti veður vont
Verður allt að klessu
Ekki á hann Grímur gott
að gifta sig í þessu.
Þetta tautaði hún fósturamma mín stundum þegar hún hélt til fjóss á síðustu öld. Þessi orð hennar koma í huga mér núna þegar að stormurinn skekur húsið og í huga leita minningar um tíð sem ekki er svo langt síðan að var hér á landi.
Þá geisuðu eftir því sem að ég man rétt fleiri og stærri stormar en geysa í dag þrátt fyrir að ekki væri búið að finna upp hnattræna hlýnun. Þá var regla frekar en undantekning að rafmagnið fór þegar veður voru eins og í dag og þá varð að handmjólka kýrnar því ekki var hægt að sleppa því. Ég er viss um að þá hefði margur fjósamaðurinn og fjósakonan óskað þess að um landið lægju línur tengdar í þau möstur sem að halda uppi raflínum okkar í dag og tryggja okkur það öruggt rafmagn að varla finnst olíulugt eða Aladyn lampi á nokkru heimili lengur. Hvað skildu annars margir sem eru undir þrítugu núna vita hvað Aladyn lampi er. Sennilega myndu allir segja að það væri lampinn sem andinn kom úr í teiknimyndinni.
Mér eru enn minnisstæð fyrstu kynni mín af svona lampa en þá var ég sem gutti sendur á næsta bæ vegna veikinda til að hjálpa til við húsverkin því að bóndinn hafði þurft að fara á spítala. Ungur sem ég var og alin upp á bæ þar sem rafmagnsljós loguðu í skammdeginu dáðist ég að hinu bjarta ljósi Aladynlampans og mátti til með að reyna að fanga það en á þessum bæ var ekki komið rafmagn þó langt væri liðið á síðustu öld og flestir haldi nú að rafmagn hafi alltaf verið á öllum bæum hér á landi.
Sennilega hef ég nú ekki orðið til mikils gagns þarna í vistinni með reifaðar hendur eftir kynni mín af lampanum sem var jú alveg brennandi heitur. En ég lærði þarna þann vísdóm að maður skildi varast björtu ljósin og nálgast þau með varúð.
Ég vil deila þessum vísdómi með löndum mínum sem nú líta á Icesave samninginn sem geisla frá samevrópskum Aladynlampa og vilja ólmir höndla ljósið við þá segi ég varið ykkur það getur brennt.
Ég hef verið hálf latur við að blogga upp á síðkastið enda búin að fá nóg af endalaust sömu fréttum Það virðist ekki hafa verið nóg að leggja á þjóðina áfall síðasta vetrar heldur þurfa fjölmiðlar nú að endurflytja fréttir síðasta árs dag fyrir dag og þulirnir jafnvel klæddir í sömu föt. Ég held að það hefði varla lyft baráttu þreki bandamanna á æðra stig í seinni heimstyrjöldinni ef að reglulega hefðu verið endurteknar fréttir frá flótta þeirra yfir Ermarsundið og falli Niðurlanda og Frakklands. Þessi fréttaflutningur er í besta falli meinlaus en í versta falli dregur hann enn þrekið úr þjóðinni en þrekið er hlutur sem að engin stjórnmálamaður virðist leggja á sig að reyna að byggja upp þessa dagana. Það væri virðingarvert ef ríkisfjölmiðlarnir tækju sig nú til og færu að flytja fréttir sem styrktu sjálfsvitund og þrek þjóðarinnar í bland við aðrar fréttir ég geri ekki þá kröfu til þeirra fjölmiðla sem hafa það megin hlutverk að vera málpípur eiganda sinna.
Þessi baksýnisspegils árátta minnir mig á orð sem að maður að nafni Evrípídes mælti en hann sagði að ekki skildi sóa nýjum tárum á gamlar sorgir.
Það mættu margir taka sér þau orð til eftirbreytni í dag þegar allt virðist snúast um orðna hluti en fátt virðist benda til framsýni og þors.
Góða Helgi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.