10.7.2009 | 00:22
Lýst er eftir.
Ég held að ég sé ekki eini Íslendingurinn sem er hálflamaður af þeim atburðum sem að hér hafa orðið. Ég held líka að fleiri en ég séu alveg búin að fá upp í kok af því að hlusta á umræður og fréttir.
Hugsið málið hvað hafa margir sagt ykkur að þeir séu einfaldlega hættir að hlusta á fréttir þær séu ekkert annað en samsuða af áróðri og beljanda í þágu stjórnvalda og ákveðinna hagsmuna hópa. Minna fer fyrir talsmönnum hins þögla meirihluta þjóðarinnar sem að yfirleitt lætur allt yfir sig ganga.
Svo er í dag komið með þjóðinni hún reikar um eins og hópur sem hefur lent í stórslysi og er haldin áfallaröskun. Það er engin sem að leiðir hana og þeir sem að hafa tekið það að sér eru líkastir aukaleikurum í Lost sem flækjast fram og aftur í frumskógi á eyju og hafa ekki hugmynd um hvað þeir eru að gera eða hvert þeir eru að fara og maður hefur sömu tilfinningu fyrir þáttunum eins og fyrir lýðveldinu að þetta hljóti að enda með hörmungum.
Það vantar ekki að stór hópur fólks telur lausnina þá að gefa alt frá sér og kasta sér í faðm Evrópu sambandsins hingað muni flæða ómælt magn af peningum í formi styrkja og alt muni verða í blóma strax við inngöngu jafnvel krónan muni rétta úr kútnum eins vínlaus alki sem að finnur lykt af brennivíni. Mér var þó kennt að aldrei verður eitthvað til úr engu og æ sé gjöf til gjalda þannig að ég slæ mikla og stóra varnagla við hinum samevrópska draumi enda geta góðir votir draumar breyst i martröð áður en vaknað er.
Hvað er inntakið í umræðunni. það er, hættum þessu basli göngum í Evrópusambandið verðum hluti af stærri heild sem að mun sjá fyrir okkur alveg eins og Noregs konungur lofaði þegar við gengumst honum á hönd. Hvernig fór það það tók okkur aldir að ná okkur upp úr því þjóðin kúldraðist í torfkofum og dróst aftur úr öðrum þjóðum á öllum sviðum. Hvað skeði síðan þegar að þjóðin fékk frelsi sitt aftur Það tók hálfa öld að komast meðal ríkustu þjóða í heimi. Þetta segir mér það að fullveldi þjóðarinnar og sjálfstæði í ákvarðanatöku er hið eina sanna fjöregg okkar brjótum við það þá liggur leiðin niður á við aftur og helsta dægrastytting okkar sem verðum ekki verðlaunuð með stól og glugga með útsýni yfir Brussel verður að segja hvort öðru sögur af fornri frægð meðan við bíðum matarmiðanna frá Evrópusambandinu.
Það má þó sjá björtu hliðarnar í því kannski hefst hér söguritun á ný og rithöfundar sem mest hefur borið á nú um stundir verða jafngildir Snorra Sturlusyni og hinar Íslensku árþúsunda sögur vekja hrifningu meðal fræðimanna eftir svona ca 1000 ár.
Versta er að í dag eru bækur á minniskubbum eða pappír en ekki skinni og ekki hægt að éta þær eins og hægt var að gera við handritinn forðum daga þanig að söguritunin mun ekki brauðfæða þjóðina í þetta sinn.
Ekki er heldur til bjargráða lengur að éta skóna sína því Nokía stígvélin, sem að framleidd eru af einni af vinaþjóðum okkar, sem reynst hefur okkur svo vel og sýnt mikið sjálfstæð í ákvarðana töku um að hjálpa okkur eins og aðrar vina þjóðir okkar að Færeyingum undanskildum, eru óæt það er stígvélin. Satt best að segja voru allar hinar svokölluðu vinaþjóðir, líkastar þeim huglausa hópi sem ekki þorir að rétta þeim sem órétti er beittur hjálp, vegna hugleysis.
Menn skulu ekki álykta sem svo að ég telji að við höfum ekkert rangt gert við gerðum það og þurfum að bæta fyrir brot okkar en það breytir því ekki að reynslunni ríkari mun ég aldrei kalla hinar svokölluðu vina þjóðir því nafni aftur.
Það slær mig að í öllum þessum málflutningi síðan hrunið varð hef ég engan ráðamann heyrt tala máli þjóðarinnar þannig að ég hafi tekið eftir. Það er engin að tala kjark í þjóðina heldur er skipulega unnið að því að draga sjálfsmynd hennar niður og breyta henni í meðfærilega hjörð sem hægt er að reka í einum hópi í arma Evrópu valdsins. Það er enginn sem stendur uppi dag eftir dag og ver þjóðina heldur er talað niður til hennar við erum samansafn af aumingjum sem að tóku bílalán keyptum flatskjái fórum til útlanda já og datt í hug að koma okkur þaki yfir höfuðið. Og þetta hefur mátt lesa í greinum eftir málsmetandi menn og heyra í viðtölum, mér hefur misboðið þetta og er er ekki einn um það.
Þjóðin minnir mig í dag einna helst á það sem að fræðingar segja um brotnar fjölskyldur vegna það er að yfirleitt séu allir fjölskyldumeðlimir í rúst nema gerandinn sem að fær meðferð og lækningu en hinir sitja brotnir og bældir eftir og kenna sér um allt sem miður fór.
Þess vegna tel ég að nú sem aldrei fyrr sé lífsnauðsyn að upprísi afl sem að hefur það að sinni stefnu að tala kjark í þjóðina láta hana vita að þetta sé ekki allt henni að kenna afl sem að þorir að elta hina seku þorir að standa vörð um þau gömlu gildi sem að afar, ömmur, mæður og feður okkar kenndu okkur og þorir að standa vörð um Ísland um málið okkar söguna okkar kvæðin og annað sem að þeim var kært og um sjálfstæði okkar.
Þó að hér hafi orðið mistök þá skulum við hafa það í huga að það er ekki verk þjóðarinnar heldur þeirra sem léku sér með fjöreggið og misstu það síðan eins og skessurnar í sögunni. Þjóðin á því ekki að sitja hnípin og taka á sig skömmina og sökina heldur horfa upprétt fram á vegin og standa á rétti sínum gagnvart mótaðilum sínum.
Það er látið eins og hér fari allt á vonarvöl ef við styggjum Breska ljónið hvar væri landhelgin núna ef að menn hefðu látið þannig atriði ráða för þegar sett var bann á vörur okkar jú landhelgin væri enn 4 mílur og Evrópusambands togarar skröltu hér með davíðurnar í kálgörðunum.
Ráðamenn létu þessar hótanir ekki aftra sér þá og við eigum heldur ekki að gera það í dag en okkur vantar svo mikið ráðamenn sem að eru til í að leggja alt sitt í sölurnar fyrir þjóð sína og fósturjörð ráðamenn með bein í nefinu. (Vegna jafnréttissjónarmiða nota ég ekki orðið ráðamenn með hreðjar)
Ég lýsi eftir svoleiðis fólki
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.