28.12.2008 | 23:07
Ég er fúll
Ég er fúll yfir yfir eiginlega öllu þessa dagana yfir dugleysi ráðamanna dáðleysi þeirra sem að eru að fara yfir óreiðumálin og ástandinu yfirleitt. En fúlastur er ég yfir því að hafa aulast til að vera veikur þessi jól.
Ég hef tekið upp þann arfa vitlausa sið að ef ég leggst veikur þá er það þegar ég á frí þannig að kannski get ég selt búkinn af mér til Samtaka Atvinnulífsins svo þeir geti beðið Kára að finna þetta gen, líf þeirra væri jú mikið auðveldara ef að vinnukrafturinn væri almennt veikur í frítímanum
Það er þjóðhagslega hagkvæmt líka þar sem að sjúklingar eyða ekki gjaldeyrir í ferðalög og vesen og meira kemur í kassan frá þeim í frítímanum í formi sjúklingaskatta.
Kannski er ég nútíma stökkbreyting á mankyninu á leið þess að hagkvæmari vinnudýrum hver veit.
En jólin mín byrjuðu bara vel skatan smakkaðist ljúflega og olli léttum særindum og kitli í hálsi og á aðfangadag beið restin af henni í hádeginu vel útlátin með rúgbrauði og vestfirðing eitthvað skrítið var að skötutilfinning Þorláks var enn til staðar og ágerðist nú heldur eftir seinni doseringu af góðgætinu.
Aðfangadagskvöld leið við át og skemmtun en eitthvað var það orðið skrítið að alt sem að étið var rann niður með sömu tilfinningu og skatan.
Á jóladag datt mér einna helst í hug að mín biðu sömu örlög og Midasar þar sem að alt sem hann reyndi að snæða breyttist í gull nema að hjá mér voru örlögin sú að jafnvel kofareykt hangilæri rann niður hálsinn með sömu áhrifum og 4cm skötubarð. Þegar svo engu líkara var orðið en að hinir illu Orkar sem eltu verndara Baugs um skjáinn á jólakvöld væru á hlaupum í höfðinu á mér og renndu öxunum eftir tanngarðinum milli þess sem þeir stungu spjótum í eyrun og hentu hnullungum i framheilan var komin tími á að leita skjóls í faðmi sængur og Íbúfens og lofa Guði og mömmu að fara til læknis daginn eftir eða stikna í logum Mordors og vera útlægur að eilífu hjá báðum það er Guði og mömmu.
Á annan í jólum bjargaði ég jólunum fyrir þeim starfsmanni í heilbrigðiskerfinu sem að skoðaði upp í gripinn og dáðist að einhverju sem að hafði tekið sér bólfestu þar og miðað við athugasemdirnar var það sko eitthvað athyglisvert.
Ekki voru það skötuleifar eða flís af feitum sauð brot af konfektmola eða laufabrauði heldur eitthvert þessara smákvikinda af veiru og vírusakyni sem er okkur mönnum svo skeinuhætt og greinilega lífvænlegt fyrirbæri.
Klyfjaður leynivopnum gegn vágestinum hélt ég heim og hef doserað skrokkinn samviskulega með þessu og nú á sunnudegi loksins skriðinn undan sæng og orðin ról fær enda fríið búið.
Jón seinheppni hvað.
Það góða í þessu er þó það að ég gat horft á Fróða og félaga tortíma baug í eldfjallinu án þess að heil herdeild Orka væri að hamra í hausnum á mér mesta lagi einn eða tveir.
Ég vil því ráðleggja ykkur sem að nenna að lesa þetta að ef þið finnið enn skötuáhrif í hálsakoti andskotist til læknis strax það er alveg ótrúlega slæm hálsbólga að ganga sem leggur jafnvel víkinga af stærri gerðinni volandi í bælið.
Og þó að þessi jól flokkist í sama fúla pottinn og ælupestar jólin á síðustu öld þá bætir tíminn sem að ég eyddi með með fyrstu og annarra kynslóðar afkomendum á aðfangadag það upp og vel það.
Það er engin gleði meiri gleði heldur sú einlæga gleði barnanna sem við verðum vitni að á þessum stundum gaman hefði verið að hafa báða afkomendurna viðstadda en það verður bara um næstu jól.
Og það sem er skemmtilegast við þetta allt saman er að eftir ca 30 ár ef ég tóri hef ég fyrir löngu gleymt kreppunni og hálsbólgunni en verð að sýna þriðju kynslóðinni mynd af hlæjandi mömmunni við að taka upp pakka á sínum þriðju jólum og kem til með að muna hvern hlátur og hvert hróp "Sjáðu mamma vowwwwww "
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.