Leirvogur Áramótaheit 1/25

Nú ætlar undirritaður aðeins að breyta út af vananum og setja hér á bloggið framvindu áramótaheitis sem er að labba allar gönguleiðir í bók sem að bloggari fékk í jólagjöf frá afkomendunum og er um 25 gönguleiðir á Reykjavíkur svæðinu.

Þessa helgina var ráðist á leið 14 ekki strætó þó að fréttirnar um að börnum væri hent út þar ættu þau ekki fyrir fargjaldinu hafi vakið hjá mér löngun til að hirta þá rekstrar aðila nokkuð.
Nei leið 14 er Leirvogur litur út fyrir að vera meðal löng einhverjir 6,6 Km og labbað er frá Eiðsgranda og hægt að velja tvo hringi og var sá lengri valinn með smá útúrdúr þar sem gangan hófst og endaði við heimadyr.

Gengið ver sem leið liggur í átt að Egilshöll eftir gangstéttum og þaðan yfir á malarstíg sem eins og ég átti eftir að komast að endaði skyndilega í ekki neinu eins og fleiri stígar á þessari leið minni. Þá var  bara að ganga í götukanti þangað til að stígnum sem liggur að Korpúlfstöðum var náð og hægt að stika hann.
Þar mátti dást að öðrum útivistareinstaklingum sem voru að iðka golf sér til ánægju og yndisauka ekki er þó laust við að göngugarpur léti lítið fara fyrir sér í Hagkaupsstrigaskóm og lopapeysu með ullar húfu og tvíþumla vettlinga þegar garparnir á vellinum stukku hver af öðrum upp í golfvagna sína eftir teigaskotinn. En útivera er jú útivera sama í hvaða formi hún er.

Þegar komið er framhjá Korpúlfstöðum endar stígurinn eins á sama hátt og minnst er á hér að ofan og við blasti graslendi löghlýðni göngugarps næstum aftraði honum frá því að stíga af stígnum og út á grasið, er ekki bannað að ganga á grasinu í þéttbyli eftir smá umhugsun var látið  vaða og stokkið á grasið og vonað að ekki væri verið að brjóta of margar reglugerðir umhverfisyfirvalda.

Iljar gamals sveitamanns glöddust við snertinguna við grasið þar sem arkað var yfir móann og sneitt framhjá afurðum grágæsa sem greinilega hafa ekki heyrt um að ekki megi skilja eftir saur á víðavangi.
Ég leiddi hugann að því hvort Svandís vissi hvað mikið af fræjum erlendra planta berist hingað í maga systra þeirra og bræðra á vordögum og festi þær rætur eru þær þá innlendar orðnar eða eru þær erlendar og þar með í útrýmingarskildu.
Sem í raun þýðir að við erum ekki að vernda náttúruna við erum að reyna að stöðva þróun hennar.

Þar sem ég skrölti eftir grasinu var mér litið á hið gífurlega magn af sinu alstaðar og nýlegir eldar komu í huga mér og get ég ekki annað en látið mér detta í hug að nágrenni borgarinnar sé að breytast í eina allsherjar eldgildru því verði þurrt og eldur kviknar í þurrum vindi mætti ekki mikið út af bera til að úr yrði heljar bál. Það laust í huga mér að kannski hafi almættið skapað grasbítana eftir fyrsta sinu eldinn en hafi ekki séð fyrir að síðasta sköpunar verk þess það upprétta myndi síðar banna grasbítana í fávisku sinni. 

Nóg um það leiðin lá að Korpu og niður með henni að Leirvogi og þá snúið aftur í átt að Grafarvogi eftir vel gerðum göngustíg fátt var að sjá nema meiri sinu en þegar komið var nær sjónum var ekki annað en hægt að tylla sér og hlusta smá stund á hafið það er ótrúlegt hvað niður öldunnar getur haft góð áhrif á sálartetrið.

Út með ströndinni var komið að listaverki vont er að ekki skuli vera merkt hver höfundurinn er né nafn verksins en úr fjarska hélt ég að um skipsflak væri að ræða vegna ryðlitarins en þegar nær var komið þá er um að ræða málmstrending nokkurn og sé horft á hann úr átt einni mæti halda að listamaðurinn eða konan hafi haft þann líkamspart kvenna sem að einungis konur mega nefna og skrifa um sem fyrirmynd af verkinu það flaug í huga mér ef svo væri þá væri nú gott að munninn snéri undan þeim vindi sem blés þennan morguninn.

Stikað var áfram og fátt til truflunar nema einn og einn hjólreiðamaður sem var næstum búin að keyra yfir göngugarp.
Hvernig er það eru ekki bjöllur á þessum gripum lengur.
Þeim til vorkunnar skal viðurkennast að göngulag mitt er frekar skrykkjótt með köflum enda sveimhugi með margskipt gleraugu í þokkabót.
Þó varð þetta mér uppspretta hugmyndar að sprotafyrirtæki. Svo er að fjölmargir þessara kappa voru með hunda í bandi sem drógu hjólhestana. Hvernig væri bíllaus Reykjavík 2012 ekki það að hún verði ekki bíllaus hvort eð er vegna skatta og gjalda, en hugmyndin um að Reykjavík verði fyrsta borgin þar sem menn ferðast á hjólhestum dregnum af hundum kom í huga mér.
Algerlega mengunarlaust og vistvænt hvert heimil ætti hund á hvern mann til ferðalaga það hitar húsin þeir éta það sem af borðum fellur og svo vernda þeir gegn innbrotsþófum. Það hefur hvarflað að mér að sækja um einkaleyfi á hugmyndinni.

En áfram var haldið framhjá Eiðisvíkinni þar sem að togarinn Íslendingur sökk 1926 og framhjá öðru listaverki eða ég held að það sé listaverk sem er einmanna stóll standandi við stíginn og mætti merkja betur eins og minnst hefur verið á. Væri að mínu mati til mikilla bóta að setja gínu í stólinn.

Þegar hér komið sögu var kaffi hungur farið að gera vart við sig og hert á göngunni framhjá listaverkunum ofan við gömlu áburðarverksmiðjuna sem að mínu viti væri frábær langtíma geymsla fyrir brotamenn. Það er alla vega nöturlegt að sjá þetta mikla húsnæði standa þarna arðlaust að því að virðist.

Restin af leiðinni var stikuð með kaffi ilm í nefinu og það var ánægður kappi sem skellti í sig kaffi og fór yfir gönguna. Tíminn sem gangan tók var 95 mín og vegalengd er um 7,5 til 8 km  1/25 af áramótaheiti lokið

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband