19.12.2010 | 20:46
Hin raunverulegu verðmæti.
Nú er síðasti sunnudagur fyrir jól, undanfarið höfum við fengið að heyra af neyð samborgara okkar og einnig fréttir um að neyðin sé engin neyð hjá sumum heldur sjálfsköpuð. Ég held að hvoru tveggja sé rétt en ætla ekki að setja mig í dómarasæti um þau mál né fjalla um það hér.
Ég bið þó þá sem að nú halda út í jólaæsinginn sem að skipulega er kynnt undir að staldra aðeins við og íhuga málin jólin fást ekki á raðgreiðslum eða verða neitt betri þó þau séu greidd í febrúar. Jólin eru minningar minningar um æskuna sem er liðinn og hjá okkur sem komin erum á miðjan aldur eru þau sigur yfir máttarvöldunum maður lítur upp á þann gamla og segir sérðu ég náði einum enn.
Ég er sannfærður um að þeir sem nú fara um bæinn og leita einhvers til að gefa sínum nánustu til að kalla fram bros í þeim augum sem þeim þykir vænst um gera það allir af þeim einlæga ásetningi að gera þessi jól þau bestu að eilífu og mörg okkar ganga mun lengra en geta okkar er, ekki af því að við séum vitlaus, heimsk, óráðsíu fólk.
Nei það er vegna þess að löngunin til að gleðja er öllu yfirsterkari. Það er þó staðreynd að gleðin er ekki efnislegt verðmæti og verður aldrei keypt og þegar líður að greiðslu jólanna i febrúar eru gjafirnar löngu gleymdar og áhyggjur yfir stærð páskaeggja teknar við og þau má örugglega líka borga mánuði seinna.
Af hverju er ég að pæla þetta jú ég fór að hugsa um hver væri minnisstæðasta jólagjöfin úr minni æsku og ég bið ættingja og vini innilega forláts að ég man ekki eftir neinni þeirra það stendur engin þeirra upp úr en þær voru allar góðar og allar velþegnar á þeim tíma og ætið síðan.
Hvað stendur þá upp úr frá löngu liðnum jólum jú það er keðjuglamur á ísilögðum götum Borgarfjarðar á leiðinni í kaupstað fyrir jólin, samvera fjölskyldunnar á þeirri ferð, maltflaska og prins polo áður en haldið var heim aftur og það ber að muna að þessi 45 kilometra ferð tók heilan dag þá í miðstöðvarlausum willis al la 1946
Ískaldar appelsínur og epli falin einhverstaðar í hlöðunni, bornar fram um hátíðarnar og sá hluti af einum kassa af kók sem að féll í hlut bloggara yfir hátíðina er enn í bragðlaukum bloggarans.
Lyktin af nýskúruðu trégólfi með grænsápu hangir enn í nösum hans og í eyrum hljómar eins og það hefði verið í gær Gerður Bjarklind að lesa í margar klukkustundir á Þorlak "Kærar kveðjur til fjölskyldunnar á ..... frá fjölskyldunni á .... með ósk um Gleðileg jól gott og farsælt komandi ár"
En hvað ég fékk þá í jólagjöf get ég hreinlega ekki munað. Ég á aftur á móti í kössum hér og þar hluti sem að seint geta talist til mikilla verðmæta í efnisheimi nútímans, nokkur illa páruð kort sem að mér finnst þó ein fegursta skrift í heimi, slatta af steinum skeljum og öðru smálegu sem eru gjafir seinni tíma gefnar af miklum vilja en lítilli efnahagslegri getu ungra einstaklinga.
Þessar gjafir man ég vel.
Það má þó ekki taka það svo að hér sé verið að tala niður vilja okkar til að gefa ég fór einungis að velta því fyrir mér hvað væri mér minnisstæðast frá þessum löngu liðnu árum og það voru ekki gjafir heldur samvera við fjölskyldu vini og nágranna sem að stendur upp úr og athafnir þeirra til að gleðja mann og þá athöfnin meira en efnislegt gildi hennar.
Því skildum við muna að það er ekkert víst að dansandi Björninn eða mannhæðar há dúkkan sem að verður afkomendum okkar minnisstæðast frá þessum jólum það getur alveg eins verið að þau muni eftir heitum bolla af kakó á kaffi húsi og höndum sem að báru þau dauðþreytt heim eftir göngu niður Laugarveginn og breiddu yfir þau þegar komið var heim, þegar þau hugsa til jólanna 2010 að mörgum árum liðnum.
Með þessu er ég farin út að versla :)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.