4.3.2010 | 21:15
Dæmisaga ekki þó Nasareddins eða Esops
Fyrir margt löngu í sveitahéraði einu létu bændur fjárhópa sína ganga sjálfala til húsa og hafði svo verið um langa tíð og hafði fyrirkomulag þetta veitt héraðinu öryggi sem grunnstoð afkomu bænda mann fram af manni.
En svo bar við að í héraðið réðist búfræðingur nokkur sérmenntaður í frjó- og arðsemi fjár. Benti hann bændum á að við svo búið mætti ekki standa fé sem væri í húsi skilaði ekki nógum arði það yrði að fá fjárhirða til að hámarka arðsemi fjárins. Bændur mögluðu og bentu á að meðan féð væri í öryggi heimahúsa og haga myndi skaði á því vera í lágmarki og þó afkoman væri kannski ekki í toppi þá væri þetta þó örugg aðferð til að vernda byggðina gegn felli og öðrum áföllum sem á gætu dunið.
En svo fór á endanum að á búnaðarþingi fékk ráðunauturinn því framgengt að sett voru lög um að alt fé skildi hafa fjárhirði. Gekk svo fram um hríð að hver fjárhópurinn af öðrum öðlaðist sinn hirði og það var sem við manninn mælt lömbum fjölgaði og stofninn óx og dafnaði, þegar bændur litu yfir fjallendi sitt mátti sjá hvíta díla um holt og hæðir þar sem fé var á beit og var ekki frítt við að gleðisvip mætti sjá á andlitum þeirra.
Fjárhirðarnir skrifuðu reglulega í Búnaðarblaðið langar greinar um það hvernig þeir hefðu breytt sæðingum og klofið sáðfrumur svo að nú mætti frjóvga tvö egg með hverri frumu og ekki yrði langt að bíða þar til að um allan heim þessi tegund búskapar yrði ráðandi.
Við og við komu þó upp gagnrýnisraddir þegar ein og ein kind skjögraði heim í hlað og viðkomandi bónda fannst hún heldur rýr í ullinni. Þær aðfinnslur voru þó kveðnar í kútinn þetta væri misskilningur því verið væri að rækta fé sem að væri með þynnra hryggjarstykki og þess vegna betur lagað til brúks á grillteina og glóðir enda voru menn löngu hættir að elda spað um þessar mundir allt kjöt var grillað og penslað á modern máta með erlendum grillsósum.
Leið nú tíminn að hausti einu þegar hretviðri gerði all mikið. Er bændur litu út um morguninn fannst þeim hafa fækkað hvítu dílunum í hlíðunum og gerðu sér ferð til að skoða. Mikil var undrun þeirra þegar þeir komust að fyrsta fjárhópnum, að þeir töldu, að finna þar spýtur upp á rönd klædda ullarlögðum.
Fór nú hrollur um bændur og hófu þeir ferð um fjalllendið og niðurstaðan var skelfileg. Fjárhóparnir fögru voru að mestu leiti ekkert nema reifi hengd á spýtu. Vildu þeir leita fégæslumanna en þegar komið var að íverustað þeirra fannst ekkert nema óhreint leirtau og afrifur af farmiðum til ókunnra stranda. Einn fjárhirðir hafði þó orðið seinn fyrir og af ótta sagði hann bændum af fjárhirðum og gjörðum þeirra.
Höfðu þeir haldið veislur miklar og boðið þar fraukum fallegum til matar og drykkjar og nýtt til þess fjárstofninn en eftir því sem meira fé lenti á grillteinum hirð, brugðu þeir á það ráð að setja reifi á stjaka til að svo sýndist sem að stofninn væri enn af sömu stærð, síðan fékk einn þá frábæru hugmynd að skera hvert reifi í tvennt og tvöfalda þannig stofninn. En af hverju ekki að fjórfalda hann sagði annar og endaði það með að hvert reifi var skorið i sexstrending og girðingarstaurar teknir til að hengja þau á.
Við að taka girðingarstaurana hvarf aðhaldið að fénu og það slapp út um hvippinn og hvappinn og vegna þess að það var einungis vant heimahögum glataðist margt af því fyrir björg og kletta sem kom þó ekki að sök svo lengi sem féhirðar náðu reifinu og gátu sett á stjaka.
Það ríkti þögn í bændahópnum á heimleiðinni þar sem að þeir ráku á undan sér það sem eftir var af fénu ekki einu sinni nóg til að jafna því niður á alla bæi héraðsins. Þeir gerðu sér ljóst að veturinn yrði harður og að ekki myndu allir í hópnum sjá næsta vor.
Af búfræðingnum er það að segja að hann taldi bjargráð sveitarinnar vera að flytja inn vínberjagræðlinga frá nágrannaríkinu með því myndu bændur slá tvær flugur í einu höggi. Gætu ræktað vínber sér til viðurværis og nágrannaríkið myndi gefa þeim sykur vegna aðstæðna þeirra svo þeir gætu unnið vín og drukkið sig í algleymi og gleymt því sem áður var. Það er áður en fjárhirðarnir hirtu féð.
Dæmisagan á ekkert skilt við frétt þessa en höfundi eru hugleikinn orðin fé án hirðis
Nauðasamningar Bakkavarar samþykktir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:17 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.