Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
24.12.2008 | 15:18
Á jólum
Þegar skötuilmurinn lætur undan hangiketsilminum á aðfangadag verða jafnvel ískaldir miðaldra karlmenn hálfmeyrir og um hugann renna myndir af liðnum jólum.
Jól eru einn af þeim tímapunktum sem sitja í sál okkar flestra tími tilhlökkunar og gleði einnig vonbrigða.
Tíminn er afstæður og fljótur að breytast það sem að ber hæst í minningu míns aldursflokks eru hlutir sem að kynslóðir dagsins í dag trúa ekki að hafi verið einhvers virði. Það er erfitt að trúa að svo einfaldir hlutir hafi í raun verið svo mikilsverðir þegar alist er upp í neyslusamfélagi dagsins í dag. Neyslusamfélagi sem er þó varla meira en þrítugt.
Jól hafa skilið eftir í minningunni lykt af eplum bragð af ísköldum appelsínum jú og og glamrið í keðjum þegar ekið er á ísilögðum vegi. Þá gat jólainnkaupaferðin auðveldlega breyst í langa dagsferð því að ekki voru vegir saltaðir og hreinsaðir eins og tíðkast í dag. Þar var það áætlun mjólkurbílsins sem skipti meira máli en jólainnkaup.
Það var merki um að jólin væru að koma þegar að bærinn angaði að lyktinni sem að fyllir húsakynni og berst frá nýskúruðu trégólfi með grænsápu og raddirnar í útvarpinu hófu lestur jólakveðja. Það er ótrúlega sterkt í minningunni að hafa komið inn frá því að hafa gefið hrossum eða unnið önnur útiverk og hafa sest niður og hlustað á kveðjur í óratíma til fólks sem að maður þekkti ekki neitt.
Ég hef margoft reynt að leita uppi þessa stemmingu seinna á lífsleiðinni en ekki fundið hana eplin lykta ekki lengur appelsínurnar eru ekki kaldar og safaríkar á sama máta og áður og jólakveðjurnar týnast í auglýsingaflóði og síbylju dagsins.
Seinna komu jól með öðrum minningum þegar að börnin uxu úr grasi og stemming jólanna fólst í fölskvalausri gleði fyrstu kynslóðar afkomendanna við að undirbúa þau þar til hámarki var náð á aðfangadags kvöld.
Nú er komið að enn einum tímamótum í lífi karlsins sem að situr hér og hamrar á lyklaborðið. Það er komið að fyrstu jólunum i boði afkomenda fyrstu jólunum þar sem að ekki er allt á fullu við að sníða og snurfusa ekkert suð í pottum eða glamur í pönnum heldur bara sturta og síðan að skella sér í matinn og njóta hans. Og viti menn ég held að gamla jólatilfinningin sé að stinga sér niður aftur kannski eru jól einfaldlega ekkert annað en kyrrð og friður frá hinu daglega amstri smá þögn og tími til að líta inn í sjálfan sig og eyða smá tíma í þá persónu sem að alltof margir vanrækja það er þá sjálfa. Því þó sælla sé að gefa enn þiggja þá mega menn ekki gleyma að rækta sjálfan sig svo þeir geti gefið af sjálfum sér. Sennilega er leyndardómurinn á bak við jólin ekki flóknari en það.
Ég finn þó ekki enn ilminn af eplunum en hvort um er að kenna nútíma ræktunaraðferðum, margra ára reykingum eða löngum tíma við vélstjórn veit ég ekki en kannski kemur eplalyktin um næstu jól hver veit. En nú er mál að fara og fagna hátíðinni og njóta þeirra forréttinda að vera þiggjandi í mat og drykk og fá að upplifa barnslega jólagleði enn einu sinni þar sem að önnur kynslóð afkomenda mun taka við að halda uppi jólagleðinni.
Óska vinum og vandamönnum svo og landmönnum öllum
Gleðilegra Jóla